154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

Staðan og aðgerðir í loftslagsmálum.

[14:23]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Ég vil líkt og aðrir þakka málshefjanda fyrir umræðuna sem er afar mikilvæg því að flest erum við sammála um að orkuskipti eru gríðarlega mikilvæg hvað varðar framlag Íslands til að ná árangri í baráttunni við loftslagsvána. En það sem margir eru kannski ekki upplýstir um, af því að hér kom hv. þm. Jakob Frímann og talaði um mikilvægi grænnar orku og hátt hlutfall sem við nýtum hér til að hita heimilin okkar og bílana okkar o.fl., er að 40% af olíunotkun landsins eru nýtt í iðnaði og öll verðmætasköpun þar byggist á þeirri orku.

Orkuskiptin krefjast grænnar endurnýjanlegrar orku, við vitum það, til að skipta út jarðefnaeldsneytinu, en samgöngur í lofti og skipaflotinn er að mestu knúinn jarðefnaeldsneyti og við flytjum inn olíu fyrir 100 milljarða á hverju ári, enda ekki orðin sjálfstæð enn í orkumálum. Þarna liggja klárlega tækifæri fyrir íslenska þjóð að framleiða sitt græna endurnýjanlega eldsneyti til að koma okkur áfram í samgöngum, en vissulega þarf tæknin að fylgja þar með. Ríkið skapar viss skilyrði í baráttunni og fyrirtæki leggja sig fram við að minnka losun. En mig langar aðeins að forvitnast hvort það séu einhverjar áætlanir til varðandi þennan þátt á milli ríkis og fyrirtækja því það er mikilsvert að fyrirtæki séu að leggja þetta á sig. Ég veit að margir eru að breyta sínum framleiðsluferlum í tengslum við þetta, sem er virðingarvert, en eru einhverjar tölur til varðandi þetta? Við sjáum að skerðingar eru gríðarlega kostnaðarsamar en mörg fyrirtæki hér á landi eru með samninga varðandi skerðanlega orku, sem eru mikilvægir samningar til að fullnýta kerfið okkar en hins vegar hafa skerðingarnar orðið tíðari, þær hafa náð yfir lengra tímabil og við heyrum m.a. bara að tölur um útflutningstekjur á við 8–10 milljarða, (Forseti hringir.) jafnvel 12 milljarða, séu kostnaðurinn vegna þessara skerðinga fyrir fyrirtækin. (Forseti hringir.) Mig langar aðeins að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann sjái fyrir sér að vinna bug á þessu.